Forsíða
  Fréttir
  Sjúkrahús
  Handlækningadeild
  Lyflækningadeild
  Uppl. til sjúklinga
  Uppl. til aðstandenda
  Sjúkraþjálfun
  Fæðingardeild
  Rannsóknarstofa
  Heilsugæsla
  Starfsfólk
  Neskaupstaður
  Myndir
  Um vefinn
Vefhönnun: kp hönnun og miðlun
+ F S N ...
FSN er sjúkrahús alls Austurlands. Því er þess að vænta að vefurinn verði gagnlegur þeim aðstandendum sjúklinga sem koma lengra að.
>> Meira ...

FSN er algjörlega reyklaust sjúkrahús og var hið fyrsta hérlendis sem kom á algjöru reykbanni sjúklinga og starfsfólks innan húss sem og á lóð sjúkrahússins.
>> Meira ...
+ HOLLVINASAMTÖK
Með Hollvinasamtökunum er markmiðið að styðja við og efla starfsemi Fjórðungs-
sjúkrahússins með sem víðtækustum hætti.
>> Skoða vef Hollvina.
+ T E N G L A R
Síðast uppfært 17/10/04
Gallblöðrutaka

Gallsteinar myndast yfirleitt vegna útfellinga á kólesteróli í gallinu í gallblöðrunni. Um það bil 15% einstaklinga eru með gallsteina, en einungis lítill hluti þeirra hefur óþægindi vegna þeirra. Helstu einkenni gallsteina eru verkir undir hægra rifjabarði með leiðni aftur í bak. Verkirnir koma oft, en ekki endilega, í tengslum við máltíðir, koma skyndilega og standa mislengi. Þeim fylgir oft ógleði. Fylgikvillar gallsteina eru helst sýking í gallblöðrunni, og stíflugula sem stafar af því að gallsteinar komast út í gallgangana og valda stíflu.

Meðferðin við gallsteinum er fjarlægja gallblöðruna. Reynt hefur verið að fjarlægja steinana eða gefa lyf sem leysa þá upp, en þær meðferðir hafa ekki reynst nægilega vel.

Gallblaðran gegnir því hlutverki að geyma gallið sem myndast í lifrinni þar til maður borðar, þá dregst hún saman og spýtir gallinu inn í skeifugörnina. Eftir að gallblaðran hefur verið fjarlægð heldur gallið samt sem áður áfram að myndast og rennur það þá jafnóðum inn í þarmana. Fæstir finna nokkurn mun á meltingunni eftir að gallblaðran hefur verið fjarlægð, en einstaka fá langvarandi niðurgang, sem hægt er meðhöndla með lyfjum.

Nú til dags er gallblaðran yfirleitt fjarlægð með kviðsjáraðgerð. Einungis eru gerð fjögur lítil göt á kviðvegginn, sem kviðsjánni og verkfærum er stungið í gegnum. Þó kemur fyrir einstaka sinnum að ekki reynist unnt að ljúka aðgerðinni á þennan hátt og verður þá að ljúka henni með því að gera skurð undir hægri rifjaboga og komast þannig inn í kviðarholið.

Eins og við allar skurðaðgerðir, hvort sem um er að ræða stórar aðgerðir eða smáar, geta komið upp misalvarlegir fylgikvillar og óhöpp geta átt sér stað, þrátt fyrir að varlega sé farið og vandað til verka eins og unnt er. Það óhapp sem best er þekkt við gallblöðrutökur með kviðsjá er áverki á aðalgallganginn. Á heimsvísu gerist þetta óhapp í 0,5 - 1% aðgerða, og gerir það að verkum að frekari aðgerða verður þörf til að bæta skaðann. Einnig geta myndast sýkingar í kviðarholinu og fleiri sjaldgæfari fylgikvillar.

Helstu óþægindi eftir aðgerðina eru verkir í kvið sem leiða gjarnan upp í axlirnar. Þessir verkir hverfa vanalega að mestu eftir 1-2 sólarhringa.

Ef allt gengur vel, eins og oftast er raunin, getur sjúklingurinn nærst seinnipart aðgerðardagsins. Útskrift er yfirleitt daginn eftir aðgerð. Sauma þarf að fjarlægja 10 dögum eftir aðgerðina. Það má fara í sturtu á 3. degi eftir aðgerð, en þá þarf að plástra sárin upp á nýtt. Flestir eru fjarverandi frá vinnu í u.þ.b. 2-3 vikur.

Þessar upplýsingar eru ætlaðar til viðmiðunar og eru ekki tæmandi.


>> Hér gefur að líta myndir af gallblöðrutöku teknar beint af sjónvarpsskjánum við aðgerð:

Mynd 1
Mynd 2
Mynd 3


Sjúkrahús s. 470 1450 • Neyðarlína s. 112