Forsíða
  Fréttir
  Sjúkrahús
  Handlækningadeild
  Lyflækningadeild
  Uppl. til sjúklinga
  Uppl. til aðstandenda
  Sjúkraþjálfun
  Fæðingardeild
  Rannsóknarstofa
  Heilsugæsla
  Starfsfólk
  Neskaupstaður
  Myndir
  Um vefinn
Vefhönnun: kp hönnun og miðlun
+ F S N ...
FSN er sjúkrahús alls Austurlands. Því er þess að vænta að vefurinn verði gagnlegur þeim aðstandendum sjúklinga sem koma lengra að.
>> Meira ...

FSN er algjörlega reyklaust sjúkrahús og var hið fyrsta hérlendis sem kom á algjöru reykbanni sjúklinga og starfsfólks innan húss sem og á lóð sjúkrahússins.
>> Meira ...
+ HOLLVINASAMTÖK
Með Hollvinasamtökunum er markmiðið að styðja við og efla starfsemi Fjórðungs-
sjúkrahússins með sem víðtækustum hætti.
>> Skoða vef Hollvina.
+ T E N G L A R
Síðast uppfært 30/08/13

FSN fréttir

2013
Fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað hefur borist góð gjöf. Soroptimistar á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystri gáfu deildinni nýjan fæðingarmonitor en sá gamli var orðinn yfir 20 ára og ekki lengur hægt að fá í hann varahluti. Það var því orðið tímabært að fá nýjan monitor og var keypt tæki af nýjustu og bestu gerð. Tækið mun nýtast nánast hverri konu sem fæðir á FSN því langflestar konur þurfa að fara í monitor a.m.k. stutta stund í fæðingu, auk þess sem monitorinn er oft notaður við eftirlit með vellíðan fósturs á meðgöngu. Tækið nemur hjartslátt fóstursins, samdrátt legsins og púls móðurinnar og er mikið öryggistæki fyrir móður og barn. Það mun koma að góðum notum á deildinni og hefur strax verið tekið í notkun.

Hafið kæra þökk Soroptimistar.

 

Tækjakostur deildarinnar hefur verið talsvert endurnýjaður undanfarin ár. Skemmst er að minnast fæðingarrúmsins sem Samvinnufélag útgerðamanna í Neskaupstað, Alcoa og Harpa Vilbergsdóttir gáfu fé til á síðasta ára. Einnig gáfu Hollvinasamtök sjúkrahússins nýjan hitakassa og hitaborð af bestu gerð fyrir nokkrum árum. Þá gáfu góðgerðarfélagið Hosurnar deildinni nýja og glæsilega mjaltavél fyrir tveimur árum. Það má því segja að helsti tæknibúnaður sem deildin þarf hafi verið endurnýjaður í bili.

Ómetanlegt er fyrir deildina að hafa þessa bakhjarla og kunnum við þeim bestu þakkir.

 

Næsta skref er að safna fé fyrir þráðlausri stöð við nýja fæðingarmonitorinn en það myndi gefa konum sem þurfa mikið að vera í monitor í fæðingu aukinn möguleika á að hreyfa sig um í fæðingunni og gera þeim kleyft að nota bað sem verkjastillingu og jafnvel fæða í baði.

17. apríl 2007

Vígsluathöfn nýbyggingar FSN

Í gær var haldin vígsluathöfn nýbyggingar FSN, en framkvæmdir við nýbygginguna hafa staðið í uþb. 2 ár. Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra klippti á borða á nýju endurhæfingardeildinni og tók hana þar með formlega í notkun. Fjölmargir gestir voru mættir, þar á meðal Jón Kristjánsson sem var heilbrigðisráðherra þegar framkvæmdir hófust, Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra ásamt tveimur af þingmönnum kjördæmisins og mörgum öðrum. FSN voru veittar margar veglegar gjafir við þetta tækifæri, sem munu koma að góðum notum við þjónustu skjólstæðinga sjúkrahússins.
Er velunnurum sjúkrahússins þakkað kærlega fyrir velvildina.

19. janúar 2007

Hálfrar aldar afmæli FSN

Í gær var haldið upp á hálfrar aldar afmæli Fjórðungssjúkrahússins með kaffiveitingum fyrir starfsfólk og velunnara sjúkrahússins. Við þetta tækifæri var tekið við góðum gjöfum sem sjúkrahúsinu hafa borist á undanförnum dögum. Um er að ræða nýtt og afar fullkomið ómskoðunartæki sem Hollvinasamtökin gáfu, rafdrifið sjúkrarúm frá A. Karlssyni seljanda ómskoðunartækisins, og fjögur rafdrifin sjúkrarúm frá Samtökum útgerðarmanna í Neskaupstað. Nýja ómskoðunartækið leysir af hólmi 5 ára gamalt tæki og er af nýrri og gjörólíkri kynslóð. Með því verður hægt að gera skoðanir á hjarta og æðum til viðbótar við þær skoðanir sem gerðar hafa verið með gamla tækinu, þ.e. fósturskoðanir og ómskoðanir á gallvegum. Hjón í Neskaupstað afhentu veglega peningagjöf, og er öllum þakkað hjartanlega fyrir velvildina.
Fyrirhugað er svo að halda upp á afmæli sjúkrahússins á enn veglegari hátt í mars, þegar nýbyggingin verður afhent.
22.des 2005

Fréttir af sjúkrahúsinu


3. júlí 2005

Afhending sneiðmyndatækisins og fyrsta skóflustungan tekin af nýbyggingu sjúkrahússins

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra klippti á borða og tók þar með sneiðmyndatækið sem er gjöf frá Hollvinasamtökum FSN, formlega í notkun þann 22. júní s.l. Við sama tækifæri afhenti fyrir hönd Hollvinasamtakanna, Stefán Þorleifsson fyrrverandi framkvæmdastjóri FSN, sjúkrahúsinu gjafabréf fyrir vökvadælu sem notuð er til að sprauta skuggaefni í sjúklinga þegar gerðar eru sneiðmyndarannsóknir. Heilbrigðisráðherra tók einnig fyrstu skóflustunguna að endurbyggingu gömlu sjúkrahússbyggingarinnar. Það er óhætt að fullyrða að um tímamót séu að ræða í heilbrigðisþjónustu við íbúa fjórðungsins með tilkomu sneiðmyndatækisins sem hefur geysilegt notagildi til sjúkdómsgreininga, og upphafs endurbyggingar sjúkrahússins, sem mun rýma endurhæfingardeild og hjúkrunardeild þegar byggingu líkur.
Tengill á heimasíðu Framkvæmdasýslu Ríkisins, þar sem hægt er að sjá niðurstöðu útboðs og samningskaupa vegna endurbyggingarinnar, ásamt verkefniskynningu, er hér

16. júní 2005hér
Tölvusneiðmyndatækið komið og framkvæmdir að hefjast við endurnýjun gömlu spítalabyggingarinnar


9. febrúar 2005
Bylting í röntgenþjónustu FSN
Miklar breytingar standa nú fyrir dyrum varðandi myndgreiningarþjónustu Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað (FSN).
Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að veita fé til kaupa á nýjum röntgentækum fyrir sjúkrahúsið á þessu ári og verða tækin tengd stafrænum búnaði þannig að filmuframköllun verður óþörf þar sem allar röntgenrannsóknir verða tölvutækar. Vegna fólksfjölgunar og vaxandi umsvifa á Austurlandi hafa svo læknar FSN margoft viðrað og rökstutt hugmyndir um kaup á sneiðmyndatæki til að bæta enn frekar myndgreiningarþjónustu og þar með viðbúnað FSN. Meðal röksemda fyrir staðsetningu sneiðmyndatækis á Austurlandi er fjarlægð frá Reykjavík og Akureyri, auk tíðra ferðalaga Austfirðinga í sneiðmyndarannsóknir með tilheyrandi ferðakostnaði greiddum af ríkinu, auk annars kostnaðar, vinnutaps og óhagræðis. Árlega fara íbúar af Austurlandi í um 500 sneiðmyndarannsóknir skv. tölum frá Tryggingastofnun ríkisins og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) auk áætlaðrar tölu frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Miðað við tíðni sneiðmyndarannsókna á upptökusvæði FSA sem er um 0,065 rannsóknir/íbúa má áætla að fjöldi slíkra rannsókna á FSN gæti verið um 700 á ári. Rekstarkostnaður sneiðmyndatækis á FSN hefur verið áætlaður um 8 milljónir króna en á móti koma svo greiðslur sjúklinga sem gætu numið um 6 milljónum króna. Samkvæmt þessari áætlun myndi rekstrarkostnaður sneiðmyndatækis á FSN jafngilda um 9% af þeim 90 milljóna króna í árlegum ferðakostnaði sem ríkið greiðir vegna ferðalaga Austfirðinga til lækninga og rannsókna.

Ofangreindar hugmyndir um kaup á sneiðmyndatæki hafa verið kynntar forráðamönnum og læknaráði Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA), landlækni og heilbrigðisráðherra og almennt hlotið góðar undirtektir. Ljóst er þó að opinbert fjármagn fæst ekki á næstunni til þessara kaupa enda er endurnýjun röntgentækja hér og víða annars staðar á landsbyggðinni forgangsverkefni heilbrigðisráðuneytisins.

Á fundi Hollvinasamtaka FSN þann 30.desember s.l. fengu svo kaupin á sneiðmyndatæki óvæntan byr í seglin þegar ákveðið var að hefja almenna fjársöfnun í kjölfar loforðs eins styrktaraðila um verulegt fjárframlag til verkefnisins. Þá þegar lá fyrir afar hagstætt tilboð um kaup á sneiðmyndatæki frá A. Karlssyni sem gilti til áramóta. Gengið var svo frá kaupunum á gamlársdag þar sem góðar líkur þóttu á framlögum fleiri styrktaraðila. Jafnframt var skipuð söfnunarstjórn sem í sitja þeir Stefán Þorleifsson, fyrrverandi forstöðumaður FSN, séra Sigurður Rúnar Ragnarsson, formaður Hollvinasamtakanna, Smári Geirsson, forseti bæjarráðs Fjarðabyggðar og Björn Magnússon, forstöðulæknir FSN.

Tækið sem keypt hefur verið er hraðvirkt fjölsneiða spíraltæki (Hi SPEED Dual CT Scanner System) frá General Electric í USA sem talið er henta þörfum FSN og Ausfirðinga mjög vel. Verðið er mun hagstæðara en á sambærilegum tækjum á undanförnum árum eða um 18 millj. króna án vsk.

Talsverðar breytingar þarf að gera á húsnæði FSN til að geta tekið á móti tækinu og mun sú vinna hefjast strax og væntanlega ljúka á næstu vikum.

Til að tryggja að faglega verði staðið að röntgenrannsóknum á FSN verður ráðinn til starfa geislafræðingur, auk þess sem komið verður á tölvutengslum við myndgreiningardeild FSA og röntgenlækna þar sem annast munu faglega ráðgjöf og úrlestur þeirra röntgen-og sneiðmyndarannsókna sem teknar verða á FSN. Þá er gert ráð fyrir því að komið verði upp skoðunarskjám fyrir röntgen og sneiðmyndir á öllum heilusgæslustöðvum innan HSA.

Sneiðmyndataka mun auðvelda mjög greiningu fjöláverka alls konar, s.s. heila-og mænuáverka sem því miður má búast við í vaxandi mæli hér eystra vegna aukinna umsvifa og umferðar. Þá munu sneiðmyndarannsóknir auðvelda mjög greiningu sjúkdóma frá flestum líffærakerfum s.s. æxla, æðagúla, blóðsega, heilablæðinga, blóðtappa, lungnasjúkdóma, líffærabreytinga o.fl. Með kaupum á sneiðmyndatæki er stigið eitt stærsta framfaraskref í heilbrigðisþjónustu á Austurlandi á undanförnum árum og ljóst er að gríðarleg breyting verður á þjónustustigi FSN og reyndar á öllu starfssvæði HSA. Gæði röntgenrannsókna batna verulega og meðferð verður markvissari. Loks mun framþróun myndgreiningar á Austurlandi leiða til sparnaðar ríkisins en ekki síst verulegs hagræðis og ábata fyrir skjólstæðinga Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Endurbygging eldri byggingar FSN
Nú stendur fyrir dyrum að bjóða út öðru sinni endurbyggingu eldra húsnæðis FSN sem tekið var í notkun 1957. Viðhald byggingarinnar hefur verið mjög ábatavant og er húsnæðið nú í niðurníðslu. Skipt verður um þak húsinns og lögun þess breytt þannig að heilmikið viðbótarrými skapast á efstu hæðinni sem öll verður tekin í notkun fyrir sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun, auk þess sem þar verður þolprófsherbergi og aðstaða fyrir hjúkrunarfræðinga og móttöku.

Á annari hæð verður innréttuð 12 rúma hjúkrunardeild með vaktherbergi, baðaðstöðu og setustofu.

Neðsta hæðin verður eftir endurbyggingu áfram nýtt undir eldhús og skrifstofur. Þá verður byggður utan á húsið nýr lyftuturn sem einnig rúmar fundarherbergi á efstu hæð og setustofu á annari hæð. Frá turnbyggingunni verður byggður tengigangur niður í eldri aðstöðu sjúkraþjálfunar þar sem sundlaugin er staðsett.

Ljóst er að mikið rask mun fylgja þessum framkvæmdum en að því er þó stefnt að starfsemi FSN skerðist sem allra minnst á framkvæmdatímabilinu sem vonast er til að ljúki á u.þ.b. einu ári.17. október 2004
Fréttir af endurnýjun eldra húsnæðis FSN
Til stendur að endurnýja eldri byggingu FSN, sem er illa farin og þjónar hlutverki sínu ekki lengur. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Framkvæmdasýslu Ríkisins

25. september 2004
Nýr rekstrastjóri við FSN
Valdimar O Hermannsson hóf störf sem rekstrarstjóri við FSN 1. ágúst s.l. Hann hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu. Um leið og við bjóðum hann velkominn til starfa þökkum við fyrrverandi rekstrarstjóra Þóri Aðalsteinssyni fyrir vel unnin störf undanfarin ár.

26. mars 2004
FSN fær ný speglanatæki að gjöf
Hollvinasamtök FSN afhentu sjúkrahúsinu glæný maga- og ristilspeglanatæki frá Pentax 26. mars s.l. Um er að ræða dýrustu gjöf sem sjúkrahúsinu hefur borist. Það voru fyrirtæki, einstaklingur, og stofnanir í Fjarðabyggð sem gáfu peninga í söfnunina, sem farið var í að frumkvæði lækna FSN. Þessir aðilar eru: Ónefnt fyrirtæki í Fjarðabyggð, Sparisjóður Norðfjarðar, Aðalsteinn Jónsson, Rauða Kross deildir í Fjarðabyggð, Kvenfélögin í Fjarðabyggð, Eskja og Krabbameinsfélag Austfjarða. Stendur sjúkrahúsið í mikilli þakkarskuld við ofannefnda.

Nýju tækin leysa af hólmi gömlu speglanatækin sem keypt voru 1997. Þau hafa mikið verið notuð og reynst vel. Síðan þá hafa orðið geysilegar tækniframfarir við gerð slíkra tækja, og eru myndgæði nýju tækjanna margfalt betri. Með tilkomu þeirra aukast gæði maga - og ristilspeglana sem framkvæmdar eru við sjúkrahúsið til muna, en speglanir eru stærsti einstaki þátturinn í rannsóknum á meltingarvegi. Gömlu tækin verða eftir sem áður í eigu FSN, og notuð þegar á þarf að halda.

Við sama tækifæri afhentu Hollvinasamtökin sjúkrahúsinu formlega heimasíðu FSN og var það Stefán Þorleifsson sem opnaði síðuna.

7. maí 2003

FRÍSKUR RÁÐHERRA Á ÞOLBRAUT Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra prófar nýja þolbraut FSN og hitar upp fyrir lokasprett kosninga-
báráttunnar. Mynd: Mbl.is
HEILBRIGÐISRÁÐHERRA
HEIMSÆKIR FSN

Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað, Sjálfsbjörg, Kvenfélagið Nanna í Neskaupstað, Félag hjartasjúklinga á Austurlandi og Lionsklúbbur Eskifjarðar afhentu miðvikudaginn 7. maí sjúkrahúsinu þolbraut að gjöf. Þolbrautin er af fullkominni gerð og kemur til með að nýtast vel í endurhæfingarstarfsemi sjúkrahússins.

Það var Björn Magnússon forstöðulæknir FSN sem tók við gjöfinni. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra var og viðstaddur og brá hann sér á brautina, væntanlega til þess að hita upp fyrir lokasprett kosningaslagsins.
Mbl.is sagði frá.

7. maí 2003
HEILBRIGÐISRÁÐHERRA STAÐFESTIR
STEFNUMÓTANDI ÁÆTLUN HSA

Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, hefur staðfest stefnumótandi áætlun Heilbrigðisstofnunar Austurlands til næstu ára. Áætlunin er í samræmi við langtímamarkmið í heilbrigðismálum, sem fram koma í heilbrigðisáætlun til ársins 2010.

Undirskriftin fór fram á Fjórðungssjúkrahúsinu Neskaupstað, að viðstöddum forsvarsmönnum og starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Austurlands, fulltrúum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og fleiri gestum.

7. maí 2003
BÚNAÐUR SKURÐSTOFU FSN ENDURNÝJAÐUR
Í lok síðasta árs veitti Heilbrigðisráðuneytið Heilbrigðisstofnun Austurlands 6,5 m. kr. til tækjakaupa á skurðstofu FSN. Keypt hefur verið nýtt skurðarborð, nýr skurðstofulampi, monitor fyrir svæfingavél, sogtæki o.fl. Aðgerðum á skurðstofu FSN hefur fjölgað verulega undanfarið, en Jón Sen skurðlæknir kom til starfa fyrir ári síðan.

7. maí 2003
ENDURBÆTUR Á HÚSNÆÐI FSN
Undirbúningur er hafinn við að innrétta sjúkradeild aldraðra og koma á fót endurhæfingadeild í eldri byggingu Fjórðungssjúkrahússins. Brýn þörf er nú orðin fyrir sjúkradeild aldraðra við FSN og hefur Heilbrigðisstofnunin, ráðuneytið og sveitarfélagið Fjarðabyggð átt samstarf um málið. Ráðuneytið hefur lagt til 15,7 m.kr. til undirbúnings framkvæmda og vegna hönnunar. Arkitektateikningar og frumkostnaðaráætlun liggja fyrir en ákvarðanir hafa ekki verið teknar um framkvæmdir. Eldri hluti FSN hefur ekki verið nýttur að fullu um árabil vegna lélegs ástands. Mikil þörf er á viðbótarhúsnæði við Fjórðungssjúkrahúsið og því brýnt að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á eldra húsinu, sem er vönduð bygging en skort hefur viðhald í gegnum tíðina. Öll hagkvæmnisrök hníga að því að endurbyggja gamla húsið fyrir starfsemi endurhæfingadeildar og hjúkrunardeild aldraða. Endurbyggingin er talin mun hagkvæmari kostur en nýbygging.

19. jan 2003
AÐGERÐUM FJÖLGAR Á FSN
Verkum á skurðstofunni á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað fjölgaði um 64% milli áranna 2001 og 2002, úr 381 í 623 á síðasta ári. Með verkum á skurðstofu er átt við smærri og stærri
skurðaðgerðir og speglanir.

Jón Sen, skurðlæknir á sjúkrahúsinu, segir að aukningin sýni að þörfin á þessari þjónustu hafi verið fyrir hendi á Austurlandi og mikið hafi dregið úr ferðum sjúklinga til Reykjavíkur eða Akureyrar vegna skurðaðgerða.

Á Fjórðungssjúkrahúsinu eru m.a. fjarlægðar gallblöðrur með kviðsjá, en tilkoma nýs ómskoðunartækis í fyrra hefur t.d. auðveldað greiningu á gallsteinum.

- RÚV sagði frá.

27.06.02
RAUÐI KROSSINN GEFUR NÝJAN SÓNAR
Fimmtudaginn 27. júní sl. kom stjórn Rauðakrossdeildar Norðfjarðar færandi hendi á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Rauðakrossdeildir á Austurlandi gáfu FSN nýtt sónartæki af Toshibagerð, að verðmæti 3ja milljóna króna og var hlutur Norðfjarðardeildar þar einna stærstur. Kemur tækið í stað sjö ára gamals sónars, en tækninni hefur fleygt mikið fram á þeim tíma og býður nýja tækið upp á fleiri notkunarmöguleika.

Það var Gunnar Ásgeir Karlsson, formaður Rauðakrossdeildar Norðfjarðar, sem afhenti tækið, en gjöfinni veittu viðtöku Björn Magnússon, forstöðulæknir, og Jón H.H. Sen, yfirlæknir handlækningardeildar. FSN hefur löngum notið mikillar velvildar einstaklinga, félagasamtaka og stofnana á Austurlandi sem gefið hafa góðar gjafir til batnaðar í tækjakosti sjúkrahúss og heilsugæslu.

13. júní 2002
HOLLVINASAMTÖK KOSTA NÝJAN VEF
FSN OG HEILSUGÆSLUNNAR

Á aðalfundi Hollvinasamtaka Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað, sem haldinn var á Eskifirði þann 13. júní sl., var splunkunýr vefur FSN kynntur og þar ákveðið að Hollvinir skyldu fjármagna vefinn og hafa þar einnig aðgang fyrir sitt góða starf.

"Er stefnt að því að heimasíðan og vefurinn fái aðgengi á netinu undir www. fsn.is . Var þessu verkefni afar vel tekið og augljóst að þetta skiptir miklu máli í upplýstum heimi tækninnar, að geta sótt upplýsingar um sjúkrahúisð og nánasta starfumhverfi þess og tengiliði sem máli skipta. S.s. skyldar stofnanir og heilsugæslur omfl. Hér myndast upplýsingavefur sem gagnast bæði sjúklingum og aðstandendum, starfsfólki og velunnurum spítalans".

>>Lumir þú á frétt eða fréttatilkynningu varðandi FSN og Heilsugæsluna
eða e-u öðru þessu viðkomandi máttu gjarnan láta okkur vita.

Sjúkrahús s. 470 1450 • Neyðarlína s. 112