Forsíða
  Fréttir
  Sjúkrahús
  Handlækningadeild
  Lyflækningadeild
  Uppl. til sjúklinga
  Uppl. til aðstandenda
  Sjúkraþjálfun
  Fæðingardeild
  Rannsóknarstofa
  Heilsugæsla
  Starfsfólk
  Neskaupstaður
  Myndir
  Um vefinn
Vefhönnun og umsjón:
+ F S N ...
FSN er sjúkrahús alls Austurlands. Því er þess að vænta að vefurinn verði gagnlegur þeim aðstandendum sjúklinga sem koma lengra að. Meira

FSN er algjörlega reyklaust sjúkrahús og var hið fyrsta hérlendis sem kom á algjöru reykbanni sjúklinga og starfsfólks innan húss sem og á lóð sjúkrahússins. Meira
+ HOLLVINASAMTÖK
Skoðaðu vef Hollvina FSN
Með Hollvinasamtökunum er markmiðið að styðja við og efla starfsemi Fjórðungs-
sjúkrahússins með sem víðtækustum hætti.
>> Skoða vef Hollvina
+ T E N G L A R
Síðast uppfært 15/04/13

Fæðingardeild


Við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað er starfrækt fæðingardeild fyrir Austurland. Til deildarinnar leita konur frá Seyðistfirði og Jökuldal í norðri allt suður til Hafnar í Hornafirði. Einnig er talsvert um að ungar konur ættaðar að austan en búsettar utan fjórðungsins velji að fæða á deildinni. Við deildina starfar ungur og sprækur hópur ljósmæðra, þær Hrafnhildur Lóa Guðmundsdóttir sem núna er í fæðingarorlofi, Ingibjörg Birgisdóttir, Jónína Salný Guðmundsdóttir og Oddný Ösp Gísladóttir, en þær starfa bæði við fæðingardeildina og einnig í heilsugæslunni í mæðravernd.

Störf þeirra eru mjög fjölbreytt og má þar helst nefna:

  • Símaráðgjöf til kvenna sem eru nýorðnar ófrískar eða hyggja á að verða ófrískar
  • Sónarskoðanir á meðgöngu
  • Mæðravernd þar sem fylgst er með velferð móður og barns út meðgönguna og gripið er til viðeigandi ráðstafana ef eitthvað bregður út af
  • Fæðingarhjálp
  • Sængurlega
  • Heimaþjónusta
  • Aðstoð og ráðgjöf við brjóstagjafarvandamál, s.s. stíflur, sýkingar og fl.

Ef upp koma vandamál einhvern tímann í barneignarferlinu er haft samráð og samstarf við fæðingarlækna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Áhættumæðravernd LSH og barnalækna vökudeildar LSH. Öryggi móður og barns er ávallt í fyrirrúmi.

Við bjóðum allar hraustar konur, sem eiga að baki eðlilega meðgöngu velkomnar til fæðingar hjá okkur. Við bjóðum upp á fjölbreyttar meðferðir til verkjastillingar í fæðingu s.s. bað, nálastungur, glaðloft og mænurótardeyfingu. Ef vandamál koma upp í fæðingu er hægt að ljúka fæðingunni með sogklukku eða keisaraskurði. Við bjóðum fólk velkomið í heimsókn til að skoða deildina og kynna sér aðstöðuna þar.

Ljósmæður deildarinnar leggja áherslu á að hlúa að fjölskyldunni í öllu barneignarferlinu sem næst heimabyggð, frá fyrstu vikum meðgöngunnar þar til fæðing er yfirstaðin. Í sængurlegunni er lögð áhersla á sólarhringssamveru barnsins við báða foreldra og því er feðrum boðið að gista gegn vægu gjaldi ef húsrúm leyfir. Á deildinni eru tvær sængurlegustofur, ein tveggja manna og ein fjögurra manna og er lögð áhersla á að fjölskyldan sé á einbýli sé þess nokkur kostur.

Heimsóknartímar eru frá kl. 14-21 en fyrst og fremst í samráði við hina nýbökuðu foreldra, mikilvægt er að fjölskyldan fái næði með nýjum meðlim og einnig til að hvíla sig.

Ef fjölskyldan þarf að ferðast um lengri veg og jafnvel bíða fæðingar í Neskaupstað er reynt eftir megni að aðstoða fólk við að finna íbúð gegn vægu gjaldi.

Vaktsími ljósmæðra er 860-6841 , í hann má hringja hvenær sem er út ef hverju sem tengist meðgöngunni

Gjald fyrir sólarhringsdvöl feðra er 4500 kr./sólarhring

Gjald fyrir íbúð fyrir fjölskyldur sem bíða fæðingar er 6.800 kr./sólarhring

Gjald fyrir aðgang að interneti er 1000 kr.

 

Fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað hefur borist góð gjöf. Soroptimistar á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystri gáfu deildinni nýjan fæðingarmonitor en sá gamli var orðinn yfir 20 ára og ekki lengur hægt að fá í hann varahluti. Það var því orðið tímabært að fá nýjan monitor og var keypt tæki af nýjustu og bestu gerð. Tækið mun nýtast nánast hverri konu sem fæðir á FSN því langflestar konur þurfa að fara í monitor a.m.k. stutta stund í fæðingu, auk þess sem monitorinn er oft notaður við eftirlit með vellíðan fósturs á meðgöngu. Tækið nemur hjartslátt fóstursins, samdrátt legsins og púls móðurinnar og er mikið öryggistæki fyrir móður og barn. Það mun koma að góðum notum á deildinni og hefur strax verið tekið í notkun.

Hafið kæra þökk Soroptimistar.

 

Tækjakostur deildarinnar hefur verið talsvert endurnýjaður undanfarin ár. Skemmst er að minnast fæðingarrúmsins sem Samvinnufélag útgerðamanna í Neskaupstað, Alcoa og Harpa Vilbergsdóttir gáfu fé til á síðasta ára. Einnig gáfu Hollvinasamtök sjúkrahússins nýjan hitakassa og hitaborð af bestu gerð fyrir nokkrum árum. Þá gáfu góðgerðarfélagið Hosurnar deildinni nýja og glæsilega mjaltavél fyrir tveimur árum. Það má því segja að helsti tæknibúnaður sem deildin þarf hafi verið endurnýjaður í bili.

Ómetanlegt er fyrir deildina að hafa þessa bakhjarla og kunnum við þeim bestu þakkir.

 

Næsta skref er að safna fé fyrir þráðlausri stöð við nýja fæðingarmonitorinn en það myndi gefa konum sem þurfa mikið að vera í monitor í fæðingu aukinn möguleika á að hreyfa sig um í fæðingunni og gera þeim kleyft að nota bað sem verkjastillingu og jafnvel fæða í baði.

 

 
Sjúkrahús s. 470 1450 • Neyðarlína s. 112