Forsíða
  Fréttir
  Sjúkrahús
  Handlækningadeild
  Lyflækningadeild
  Uppl. til sjúklinga
  Uppl. til aðstandenda
  Sjúkraþjálfun
  Fæðingardeild
  Rannsóknarstofa
  Heilsugæsla
  Starfsfólk
  Neskaupstaður
  Myndir
  Um vefinn
Vefhönnun: kp hönnun og miðlun
+ F S N ...
FSN er sjúkrahús alls Austurlands. Því er þess að vænta að vefurinn verði gagnlegur þeim aðstandendum sjúklinga sem koma lengra að.
>> Meira ...

FSN er algjörlega reyklaust sjúkrahús og var hið fyrsta hérlendis sem kom á algjöru reykbanni sjúklinga og starfsfólks innan húss sem og á lóð sjúkrahússins.
>> Meira ...
+ HOLLVINASAMTÖK
Með Hollvinasamtökunum er markmiðið að styðja við og efla starfsemi Fjórðungs-
sjúkrahússins með sem víðtækustum hætti.
>> Skoða vef Hollvina.
+ T E N G L A R
Síðast uppfært 4/01/08

Endurhæfing á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað (FSN)

 

Sú öfluga sjúkraþjálfun sem lengst af hefur verið einn af hornsteinum starfsemi FSN er 25 ára á yfirstandandi ári.  Óvenjulegt þótti í upphafi hversu vel var búið að sjúkraþjálfuninni hér, bæði hvað varðar tækjabúnað og ekki síður húsnæði með æfingasölum og sundlaug í kjallara nýbyggingar sjúkrahússins sem var nánast einsdæmi hérlendis.

Undanfarinn áratug hefur þjálfunarstarfseminni vaxið fiskur um hrygg með tilkomu endurhæfingarnámskeiða fyrir hjarta-og lungnasjúklinga sem haldin hafa verið hér 2-3svar á ári frá 1995.  Námskeiðin standa yfir í 5-6 vikur undir stjórn þverfaglegs teymis.  Einnig hafa bæst við offitunámskeið og nú síðast lífstílsnámskeið fyrir fórnarlömb nútíma lifnaðarhátta.  Vaxandi aðsókn og álag vegna endurhæfingarnámskeiða, fólksfjölgunar og aukinna umsvifa hér eystra hefur nú sprengt af sér gömlu þjálfunaraðstöðuna.  Því er ánægjulegt að nú í haust skyldi rætast sá langþráði draumur okkar að geta aukið og bætt við endurhæfinguna með því að taka í  notkun nýbyggða hæð í gömlu sjúkrahússbyggingunni sem endurnýjuð hefur verið af myndarskap.

Þjálfun og endurhæfing á FSN stendur þannig á tímamótum.  Sundlaugin og gamla þjálfunaraðstaðan nýtast áfram og tengjast nýju húsnæði þar sem m.a. er vel búinn tækjasalur, nokkur herbergi til einstaklingsmeðferða, skrifstofa hjúkrunarfræðings og ágæt aðstaða iðjuþjálfa m.a. með hreyfanlegum innréttingum í eldhúsi.  Þá er í nýbyggingunni gott þolprófsherbergi fyrir hjarta-og lungnaþolprófanir auk margs konar öndunarmælinga.

 

 

Teymi

 

Frá því fyrstu HL-hóparnir komu hingað til endurhæfingar hefur verið starfandi hér þverfaglegt teymi sem hefur nána samvinnu um alla meðferð, skiptir með sér verkum og hittist reglulega til að ræða nýjar hugmyndir og framvindu endurhæfingarstarfsins.  Í teyminu er læknir, fimm sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfi og sálfræðingur auk hjúkrunarfræðings sem jafnframt er teymisstjóri.  Deildin er þannig vel mönnuð áhugasömu starfsfólki sem flest hefur langa reynslu af endurhæfingu og þverfaglegu samstarfi enda margir fyrrverandi starfsmenn Reykjalundar svo sem læknirinn sem starfaði þar í 15 ár auk þess að vera yfirlæknir HL-stöðvarinnar í Reykjavík í 3 ár.

 

Starfið framundan

 

Í framhaldi flutnings í nýtt húsnæði hefur verið ákveðið að efla hér til muna hópþjálfun með reglubundnum námskeiðum fyrir hjarta-og lungnasjúklinga, offeita og þá sem eiga við lífsstílsvanda að stríða en af slíku starfi höfum við þegar mikla reynslu.  Með ráðningu hjúkrunarfræðings að endurhæfingunni er svo ætlunin að efla hér göngudeildarþjónustu með ráðgjöf, einkum fyrir þá sem eru of þungir, þjást af kæfisvefni, eru með háan blóðþrýsting, sykursýki eða efnaskiptavillu.  Hjúkrunarfræðingur deildarinnar tekur jafnframt virkan þátt í þverfaglegri vinnu sem teymisstjóri.  Fyrirhugað er að námskeiðin standi í 4-5 vikur í einu og þau verði haldin hér stöðugt og reglubundið frá því í byrjun september fram í júní ár hvert auk svo annarar meðferðar sem fer hér fram árið um kring.  Þannig sér endurhæfingardeild FSN áfram um þjálfun inniliggjandi sjúklinga s.s. eftir slys, aðgerðir og vegna sjúkdóma ýmiss konar auk göngudeildarþjálfunar.

 

 

Hjarta-og lunganámskeið, fyrir hverja?

 

HL-stöð á FSN hefur starfað frá 1995.  Reglubundin námskeið standa til boða fyrir hjartasjúklinga tveimur mánuðum eftir kransæðaaðgerð eða eftir víkkun og stoðnetsísetningu, og fyrir  hjartabilaða einstaklinga og hjartasjúklinga í viðhaldsþjálfun.  Í HL-námskeiðunum taka einnig þátt lungnasjúklingar með einkenni þrátt fyrir bestu mögulegu meðferð.

 

Offitu- og lífsstílsnámskeið

 

Offitunámskeiðin eru svo haldin fyrir þá sem þjást af  mikilli offitu og fylgikvillum hennar þar sem líkamsþyngdarstuðull er 40 eða hærri. Lífsstílsnámskeiðin henta hins vegar betur fyrir einstaklinga með líkamsþyngdarstuðul á milli 30 og 40 en þessir einstaklingar þjást oft af háþrýstingi, sykursýki, efnaskiptavillu eða kæfisvefni.

 

Stór hluti sjúklinganna er lagður inn og dvelur hér 5 daga vikunnar en þeir sem búa nálægt sjúkrahúsinu geta farið heim í lok meðferðar hvers dags.

 

Meðferð endurhæfingarhópa

 

Lögð er megináhersla á úthalds-og styrktarþjálfun, slökun og reglubundna fræðslu.  Iðjuþjálfi annast fræðslu um orkusparnað, streitustjórnun og vinnueinföldun, og hefur umsjón með eldhúsþjálfun.  Sálfræðingur veitir svo andlegan stuðning með einstaklingsviðtölum og sér um hugræna atferlismeðferð ásamt iðjuþjálfa sem hefur mikla reynslu af geðsviði Reykjalundar.

Einstaklingum sem hafa verið í offitumeðferð hér er fylgt eftir af teymismeðlimum í 2 ár.

 

Árangur hópmeðferðar er svo metinn með þolprófum, fyrir og eftir þjálfun, með viktun, mittis-mjaðmamáli og fituprósentumælingum, með spurningarlistum um heilsutengd lífsgæði, þunglyndiskvörðum og viðhorfskönnunum.  Á mynd má sjá svar við einni spurningu úr viðamikilli könnun sem framkvæmd var hér árið 2002 fyrir þá hópa sem komið höfðu hingað til meðferðar frá því 1995.

Almennt hefur endurhæfingarstarfið gengið vel  og sjúklingarnir verið ánægðir með sínar framfarir.

 

Að okkar mati er helsti kosturinn við endurhæfingarnámskeiðin hér nálægðin milli þátttakenda og okkar sem komum að meðferðinni.  Hér er enginn sem týnist í fjöldanum, allir hjálpast að og vinna saman að settum markmiðum eins og ein stór fjölskylda.  Lögð er áhersla á uppörvandi andrúmsloft, gjarnan er slegið á létta strengi og ýmislegt gert til skemmtunar og afþreyingar s.s. farið í línudans, föndur, heilsupizzaveislur, skoðunarferðir og margt fleira.

Við teljum þannig að nálægðin þjappi okkur saman og bæti árangur meðferðarinnar.  Við vonumst loks til þess að nýtt húsnæði endurhæfingardeildar og öflugt starfslið geri okkur kleift að sinna skjólstæðingum okkar á Austurlandi mun betur en verið hefur, jafnframt því sem möguleikar skapast til að taka til meðferðar sjúklinga annars staðar af landinu.

 

Endurhæfingarteymi FSN
Sjúkrahús s. 470 1450 • Neyðarlína s. 112